Gerald Cavendish Grosvenor, hertoginn af Westminister, lést í gær einungis 64 að aldri. Hertoginn var lagður inn á Royal Preston spítalann eftir að hafa skyndilega veikst. Hann var einn auðugasti maður Bretlands, en Forbes metur auð hans á rúmlega 8,3 milljarða punda. Það jafngildir um 1.286 milljörðum íslenskra króna. Hann varð sjötti Hertoginn af Westminister eftir að hafa tekið við titlinum árið 1979.

Eini sonur Hertogans er Hugh Richard Louis Grosvenor. Hugh er 25 ára og stundaði stjórnunarnám við Newcastle háskóla. Hann starfar um þessar mundir sem viðskiptastjóri hjá fyrirtæki sem framleiðir lífrænt eldsneyti. Árið 2013 báðu hertogahjónin af Cambridge hann um að vera guðfaðir Georgs prins.

Hugh mun nú erfa hertoga titil föður síns, auk Eaton Hall í Cheshire, en það hefur verið aðsetur Grosvenor fjölskyldunnar frá því á 15 öld. Fjölskyldan á einnig umtalsverð landsvæði í Lundúnum. Belgravia hverfið og Mayfair hverfið eru að fullu í þeirra eigu. Hugh telst nú vera yngsti milljarðamæringur Bretlands.