Seðlabanki Íslands þarf að halda áfram að hækka stýrivexti sína til að vinna gegn gengisfalli krónunnar. Þetta kemur fram í samtali Bloomberg við Eileen Zhang, sérfræðing Standard & Poor's. Zhang segir peningastefnu Seðlabankans ekki hafa verið sérstaklega áhrifaríka, en Seðlabankanum séu fáir vegir aðrir færir en að hækka vexti frekar.

„Ef verðbólgan fær að hækka meira þá getur Seðlabankinn ekki gert neitt annað en að hækka vexti frekar. Bankinn á afar örðugt verkefni fyrir höndum," segir Zhang.

Seðlabanki Íslands hækkaði vexti óvænt þann 10.apríl síðastliðinn, sem var þá í annað skiptið á þremur vikum. Krónan hefur fallið um 26% gagnvart evrunni í ár, nú mælist verðbólga á Íslandi 11,8%. Næstu stýrivaxtaákvörðunar er að vænta 22. maí.

Í frétt Bloomberg segir að krónan hafi fallið um 2,6% í dag í kjölfar þess að Seðlabankinn tilkynnti ekki um áætlanir þess efnis að stækka gjaldeyrisvaraforðann. Fjárfestar bíða óþreyjufullur eftir merkjum þess að Seðlabankinn hyggist spýta fé inn á fjármálamarkaði.

„Krónan mun alltaf hafa áhrif á verðbólgustigið", segir Zhang. „Hins vegar munu aðgerðir til að styðja við gengi krónunnar ekki leysa undirliggjandi vandamál."

Loks kemur fram að sérfræðingar S&P telji að íslensku bankarnir muni koma út úr núverandi vandræðum uppréttir, og ólíklegt sé að stjórnvöld þurfi að koma þeim til aðstoðar.