Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,6% í janúar frá fyrri mánuði. Ef tekið er mið af því helst verðbólga óbreytt í 1,9%. Hefur verðbólga þar með verið undir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands í 3 ár samfleytt. Hægt er að lesa verðbólgugreiningu Greiningar Íslandsbanka hér.

„Horfur eru á að verðbólgutakturinn breytist ekki verulega næstu mánuðina. Við spáum 0,6% hækkun VNV í febrúar, 0,5% hækkun í mars og 0,3% hækkun í apríl. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í apríl nk,“ segir í spá Íslandsbanka.

„Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað lítillega frá síðustu spá okkar. Er það annars vegar vegna heldur meiri hækkunar VNV næstu mánuði en við gerðum áður ráð fyrir, en hins vegar vegna heldur lægra gengis krónu að jafnaði. Við gerum þó eftir sem áður ráð fyrir hóflegri verðbólgu til skemmri tíma litið, og verður hún raunar undir verðbólgumarkmiðinu allt fram á 2. ársfjórðung 2018 samkvæmt spánni. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt og verða við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans á síðasta fjórðungi þess árs, en hjaðna síðan heldur að nýju,“ er jafnframt tekið fram í spánni.

Hagstofan birtir mælingu næstu mælingu á VNV þann 27. janúar næstkomandi.

Húsnæði, eldsneyti, áfengi og tóbak til hækkunar

Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs hefur vegið hvað þyngst til hækkunar undanfarna mánuði og að mati Íslandsbanka verður það raunin í janúar. „Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 1,3% í janúar (0,21% áhrif í VNV). Lækkun á veitugjöldum og viðhaldskostnaði vegur þó lítillega á móti þessum áhrifum, og heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,20% hækkunar í desember,“ er tekið fram.

Íslandsbanki telur að eldsneytisverð gæti haft áhrif til hækkunar sem og hækkun á verði áfengis og tóbaks, vegna hækkunar opinberra gjalda.

Útsöluáhrif, flug og verð á bílum til lækkunar

„Að vanda vega útsölur talsvert til lækkunar VNV í janúarmánuði. Teljum við að útsölur á fötum og skóm vegi til 0,58% lækkunar VNV nú og útsölur á húsgögnum og heimilistækjum til 0,24% lækkunar. Eins og sést á myndinni eru áhrifin sambærileg og síðustu ár á heildina litið. Auk þess vegur verðlækkun á sjónvörpum, tölvum og hljómtækjum til 0,06% lækkunar VNV í spánni,“ er einnig tekið fram í spánni.

Lækkun flugfargjalda gæti haft áhrif til lækkunar að þessu sinni. Þó ríki meiri óvissa með þann verðflokk í spánni.