*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 20. júní 2019 12:49

Spá 25 punkta lækkun vaxta

Standist spá bankans verða meginvextir Seðlabankans 3,75% og hafa ekki verið lægri frá árinu 2011.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig á næsta fundi sínum en sá er á dagskrá í komandi viku. Fyrr í dag hafði hagfræðideild Landsbankans spáð því að stýrivextir muni lækka í skrefum á næstu misserum um alls eitt prósentustig.

Gagni spá greiningardeildar Íslandsbanka eftir munu meginvextir bankans verða 3,75% en þeir hafa ekki verið lægri frá þriðja ársfjórðungi 2011.

Í spá bankans er tekið fram að undanfarið hafi verðbólguálag lækkað og hægst á íbúðamarkaði. Þá séu haghorfur dekkri en spáð var í maí og útlit fyrir að hagkerfið sé á leið úr framleiðsluspennu yfir í slaka. Þá gæti þrengi lausafjárstaða bankakerfisins falið í sér aukið aðhald á næstunni. Það bendi því til þess að horft verði til lægri vaxta.

Á móti hefur verðbólga verið yfir markmiðum Seðlabankans og virðist nokkuð í að hún hjaðni. Hið sama gildi um verðbólguvæntingum sumra mæliskvarða. Líkur séu á töluverði hækkun launa þegar fram í sækir og að aðhald hins opinbera sé líklegt til að minna.

„Yfirlýsing og ummæli peningastefnunefndarmanna gefa einnig sterklega í skyn að þau séu tilbúin að lækka vexti frekar til að bregðast við ágjöf á efnahagslífið og væntanlega ekki eftir neinu að bíða þar sem nýlegar hagtölur samræmast framangreindum forsendum um skaplegar verðbólguhorfur og -væntingar,“ segir í spá greiningardeildarinnar.

Bankinn telur einnig að áframhaldandi lækkanir séu í farvatninu út árið. Miðað við verðbólguspár bankans benda horfurnar til þess að vextir muni lækka enn frekar og verða komnir niður í 3,25% fyrir árslok. Viðbúið sé að vextirnir verði á þeim slóðum út næsta ár.