Greiningardeild Arion Banka spáir því að Seðlabankinn lækki vexti um fimmtíu punkta á vaxtaákvörðunardegi í næstu viku. Gangi þetta eftir hafa vextir bankans lækkað um 350 punkta (3,5%) á einu ári.

Þótt jákvæð þróun í hagkerfinu upp á síðkastið gefi tilefni til verulegrar lækkun telur greiningardeildin að vextir lækki um 50 punkta sem yrði í takt við fyrri ákvarðanir bankans. Veðlánavextir færu þá niður í 7,5% en innlánsvextir í sex prósent.

"Hjöðnun verðbólgunnar síðustu mánuði hefur skapað verulegt svigrúm til frekari vaxtalækkunar. Hefur verðbólgan gengið hraðar niður en verðbólguspá Seðlabankans gerði ráð fyrir í síðustu Peningamálum og flestar aðrar hagstærðir hafa einnig verið að þróast til betri vegar frá síðasta vaxtafundi; krónan hefur haldið áfram að styrkjast, skuldatryggingarálag ríkisins lækkað og utanríkisviðskipti skilað áfram ágætum afgangi."

Óvissan í gengisdómamálinu veldur því að vextir lækka ekki meira að þessu sinni og vísar greiningardeildin í þeim efnum til orða seðlabankastjóra á síðasta vaxtaákvörðunardegi þar sem fram kom að vextir hefðu lækkað meira ef ekki hefði komið til þessarar óvissu.