Auglýsingamarkaðurinn er einna fyrstur til að finna fyrir sveiflum í hagkerfinu. Þetta er það svið þar sem fyrirtæki leita oft fyrst hagræðingar þegar illa árar. En hvernig leggst árið í ár í auglýsingabransann þegar margir spá samdrætti í þjóðfélaginu? Viðskiptablaðið tók stöðuna hjá Auglýsingamiðlun, MediaCom Iceland, EnnEmm og ABS fjölmiðlahúsi um horfur á auglýsingamarkaði í ár.

Árið 2007 með því besta frá upphafi

Nýliðið ár virðist hafa verið mjög gott fyrir auglýsingaiðnaðinn. Jón J. Þórðarson, forstöðumaður ABS fjölmiðlahúss, kvað mikil aukningu hafa átt sér stað á markaðnum í fyrra, sérstaklega á fyrri hluta ársins, en síðan hafi dregið aðeins úr henni þegar leið á árið. Magnús B. Baldursson, framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar, segir að árið hafi verið það besta frá upphafi hjá þeim.

Hann bendir reyndar á að í fyrra hafi verið kosningar og að þær, hvort sem er til alþingis eða sveitarstjórna, hafi áhrif á markaðinn upp á við. Þórmundur Bergsson, framkvæmdastjóri Mediacom, tók í sama streng og kvað síðasta ár hafa verið mjög gott, en benti á að fyrirtækið hefði verið í uppbyggingarvexti frá því það hóf starfsemi árið 2005 og stækkað mikið á þeim tíma. Eins fengust þær upplýsingar hjá EnnEmm að árið í fyrra hefði verið metár hjá þeim.

Hæfilegrar bjartsýni gætir

Nýhafið ár leggst almennt vel í viðmælendur Viðskiptablaðsins þótt líklega hægist eitthvað á markaðnum þegar líður á árið. Þórmundur hjá Mediacom segir árið í ár hafa byrjað mjög vel. Hins vegar sé janúar ekki sambærilegur milli ára hjá þeim þar sem um mun stærra fyrirtæki sé að ræða nú. Þó telur hann að það megi gera ráð fyrir samdrætti almennt á markaði, en að hann verði mjög lítill. "Miðað við það sem ég hef verið að taka púlsinn á get ég ekki séð annað en að það verði óverulegur samdráttur," útskýrði hann, en sér reyndar fram á að hjá þeim verði árið 2008 betra en það síðasta.

Þá leggst árið vel í Jón og ABS fjölmiðlahús, en hann telur varla að þeir toppi árið í fyrra. Hann kvað janúar hafa farið rólegar af stað en oft áður og að iðulega hefði verið aðeins meiri spenna í loftinu en nú.

Einnig gætir hæfilegrar bjartsýni hjá Auglýsingarmiðlun. "Árið í fyrra var mjög gott og árið þar á undan, svo að menn búast auðvitað við einhverjum samdrætti. Árið fer reyndar mjög vel af stað hjá okkur og engin teikn eru á lofti um samdrátt, enn sem komið er," mælti Magnús en telur að miðað við orðróminn í þjóðfélaginu megi búast við að hann geri vart við sig. Aftur á móti tekur hann fram að þrátt fyrir samdrátt þurfi menn alltaf að auglýsa. Í samdráttartímum leita menn hagræðingarleiða en beita þá öðrum meðulum í markaðsstarfi sínu.

Eins leggst árið vel í Jón Sæmundsson, framkvæmdastjóra EnnEmm auglýsingastofu, og býst ekki við samdrætti hjá stofunni í ár. Hann telur reyndar að ekki verði mikill vöxtur almennt á þessum markaði á árinu. Hann kvað árið hafa byrjað vel hjá þeim og tekist væri á við mörg ný og skemmtileg verkefni.

Tækifærin liggja í samdrætti

Þótt ýmsar spár séu á lofti um niðursveiflu á markaði er á hinn bóginn oft best að auglýsa á samdráttartímum. Að sögn Magnúsar liggja tækifærin í samdrætti. Ástæðurnar eru helst þrenns konar. Í fyrsta lagi; ef samdráttar gætir á auglýsingamarkaði fær auglýsandinn meiri eftirtekt þar sem færri auglýsingar eru í umferð. Í öðru lagi lækkar verð oft á markaðnum, samfara minnkandi eftirspurn. Í þriðja lagi, fyrir þá sem eru að byggja upp vörumerki, lýkur samdrættinum einhvern tímann og sá sem hefur auglýst í niðursveiflunni nýtur yfirleitt forskots.