Húsnæðisverð hefur hækkað nokkuð hratt síðustu ár og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Greiningardeild Arion banka telur að þróunin muni halda áfram og segir fátt benda til bólumyndunar. Þetta kemur fram í samantekt sem birt var fyrr í dag.

Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hvað mest, eða um allt að 12% á seinustu 12 mánuðum. Þar sem verðbólga hefur verið lægri en greiningardeildin bjóst við, hefur raunhækkun húsnæðisverðs farið fram úr væntingum bankans. Mikil aukning kaupmáttar og aukin efnahagsumsvif hafa haft umtalsverð áhrif á verð fasteigna. Lítið virðist benda til bólumyndunar, þar sem verðið færist í takti við undirliggjandi áhrifaþætti.

Í samantekt bankans kemur fram að mikill verðmunur sé milli svæði á höfuðborgarsvæðinu. Verð í miðborginni hefur til að mynda hækkað talsvert meira hlutfallslega, heldur en verð á öðrum svæðum. Verðmunur milli höfuðborgarsvæðisins og Breiðholts er hvað mestur. Verðmunurinn er þá minnstur milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturbæjar.

Fasteignaveð hefur þó hækkað víðar en á stórhöfuðborgarsvæðinu. Á síðasta ári hækkaði fasteignaveð hlutfallslega mest á Vestfjörðunum eða um allt að 19%. Í flestum landshlutum hefur velta þó haldist svipuð og hefur fjöldi kaupsamninga aukist alls staðar frá árinu 2013.

Hægt hefur á veltu og verðhækkunum á leigumarkaði, leiguverð hækkaði þó um 6-13% á flestum svæðum.

Þrátt fyrir þessar miklu verðhækkanir er íbúðarfjárfesting enn of lítil og telur bankinn vanta 8.000 til 10.000 íbúðir til ársloka 2020.