Íbúum í Hveragerði fjölgar hratt um þessar mundir. Á síðasta ári fjölgaði bæjarbúum um 135 manns eða sem nemur 7% af íbúafjölda fyrra árs. Svo virðist sem þessi þróun muni halda áfram af enn meira afli en hingað til næstu árin. Ef miðað er við fjölda íbúða í byggingu og fjölda lóða sem þegar hefur verið úthlutað má gera ráð fyrir um 600 íbúa fjölgun í bæjarfélaginu á næstu tveimur árum segir í frétt á heimasíðu bæjarins.

Um það bil 85 íbúðir eru nú á byggingarstigi í Hveragerði og lóðum fyrir 115 íbúðir til viðbótar hefur þegar verið úthlutað. Ekki er óvarlegt að áætla að byggingu þeirra 200 íbúða sem um ræðir ljúki á næstu tveimur árum og ef meðaltalsíbúafjöldi á hverja íbúðareiningu í Hveragerði heldur sér þá ljóst að um 600 manns koma til með að setjast að í umræddum íbúðum. Íbúar í Hveragerði í dag eru rétt rúmlega tvö þúsund.