Gert er ráð fyrir því að hagnaður fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni verði minni á þessum ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra og þá er gert ráð fyrir því að hagnaður fyrirtækjanna á öðrum fjórðungi í ár verði minni en á öðrum fjórðungi ársins 2014. Kemur þetta fram í frétt Financial Times.

Ef þessi spá rætist verður það í fyrsta skipti frá hruni sem hagnaður bandarískra fyrirtækja dregst saman tvo ársfjórðunga í röð frá sama tímabili árið á undan.

Á síðustu sex árum hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 250% og er nú nærri sögulegu hámarki. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að afkoma bandarískra fyrirtækja muni taka við sér á ný á seinni hluta ársins eru þeir sem rætt er við í frétt FT áhyggjufullir af bandariska hlutabréfamarkaðnum. S&P vísitalan hefur hækkað um 2% það sem af er árinu, sem er nokkuð undir hækkunum í Evrópu og Japan.

„Í upphafi árs var S&P hlutfallslega dýr og útlit fyrir lækkandi hagnað yfir tvo fjórðunga í röð gerir hana ennþá dýrari,“ segir Jack Ablin, fjárfestingastjóri hjá BMO Private Bank. Segist hann vera að minnka hlutabréfafjárfestingu sína í Bandaríkjunum og auka hana á móti í Evrópu og Japan.