„Að okkar mati mun peningastefnunefnd halda stýrivöxtum óbreyttum næstkomandi miðvikudag. Ljóst er að niðurstaða Icesave og sú óvissa sem fylgt hefur í kjölfarið, bæði í tengslum við lánshæfi ríkisins, pólitíska landslagið, aðgangi að erlendu fjármagni, afnámi gjaldeyrishafta, framhaldi á samstarfi við AGS og óleystar kjaraviðræður eru allt atriði sem draga úr vilja Seðlabankans til að hreyfa við vöxtum.“ Þetta segir í Markaðspunktum greiningar Arion banka, sem spáir óbreyttum stýrivöxtum. Greining Íslandsbanka gerir einnig ráð fyrir óbreyttum vöxtum, líkt og greint var frá í dag. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,25 prósenta lækkun.

Umfjöllun greiningardeildar Arion banka:

„Íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn reyna nú af fremsta megni að útskýra stöðu landsins fyrir erlendum matsfyrirtæki um ágæti landsins. Á meðan óljóst er hver viðbrögð matsfyrirtækjanna verða kæmi á óvart ef Seðlabankinn tæki einhver skref sem gætu ruggað þeim báti.

Vaxtahækkun ofan í efnahagsslaka?

Að mati Greiningardeildar eru um þessar mundir fáir (ef nokkrir) undirliggjandi þættir í hagkerfinu sem kalla á hærri vexti. Verðbólguhorfur hafa vissulega versnað til skamms tíma en það má að mestu leyti rekja til hækkandi olíuverðs úti í heimi. Umsvif á fasteignamarkaði hafa jafnframt verið að aukast að undanförnu og fasteignaverð hækkað síðustu mánuði, veltan er þó enn mjög lítil sögulega séð. Það myndi skjóta afar skökku við ef Seðlabankinn brygðist við með hækkun vaxta vegna þessara þátta og væri í raun algjörlega út í hött ef horft er á þann efnahagsslaka sem spá Seðlabankans gerir ráð fyrir á næstu árum. Þar fyrir utan myndi vaxtahækkun hafa takmörkuð áhrif á fasteignamarkaðinn þar sem lítið er um ný útlán í bankakerfinu (ekki þarf að fara út í áhrif stýrivaxta Seðlabankans á olíuverð úti í heimi).

Óvissa er þema dagsins

Afar óljóst er sömuleiðis hvaða kúrs Seðlabankinn tekur í framhaldi af næsta fundi. Ef útséð er að afnám gjaldeyrishafta, einkum er snýr að öðrum áfanga, tefjist verulega ætti svigrúm Seðlabankans að vera nokkuð til frekari vaxtalækkana. Líkt og Greiningardeild hefur bent á þá er ólíklegt að veruleg stefnubreyting sé framundan í þeim efnunum á næstunni – enda hefur peningastefnunefnd hingað til lagt meiri vigt á mikilvægi þess að viðhalda háu vaxtastigi, þrátt fyrir að aðstæður í efnahagslífinu gefi tilefni til annars.“