Líklegt er að stýrivextir verði áfram óbreyttir á næstunni enda hafi áhugi peningastefnunefndar á frekari hækkun vaxta minnkað að því er Greining Íslandsbanka segir. Bendir bankinn á að samhljómur hafi verið um óbreytt vaxtastig við síðustu stýrivaxtaákvörðun, sem hafi verið í fyrsta sinn frá því í október.

Vógu þar mest horfur á minnkandi spennu í hagkerfinu og lækkun verðbólguvæntinga, og stefnir í að það spennan muni nú minnka hraðar en áður var talið. Jafnframt sé hætta á enn hraðari kólnun ef til verkfalla kemur eins og fjallað hefur um í fréttum í morgun að gæti verið handan við hornið.

Samt bendir bankinn á að rök séu einnig fyrir hækkun vaxta, það er að verðbólga er nokkuð yfir markmiði, verðbólguhorfur hafi versnað og verðbólguvæntigar séu yfir markmiði.

Jafnframt að hætta sé á að niðurstöður kjarasamninga verði ekki í samræmi við verðbólgumarkmið og eða að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að höggva á hnútinn í kjaraviðræðum leiði til minna aðhalds ríkisfjármála.