Bankastjórn Seðlabanka Íslands mun koma saman í vikunni og tilkynna stýrivaxtaákvörðun sína á fimmtudag kl.9. Í Morgunkorni Glitnis kemur frá að Greining Glitnis spáir því að vextirnir haldist óbreyttir, 13,75%.

Í Morgunkorninu segir að líkur á stýrivaxtahækkun hafa þó heldur aukist að undanförnu. Verðbólguþrýstingur hefur farið vaxandi síðustu mánuði ársins, mæld verðbólga var 5,9% á ársgrundvelli í desember og undirliggjandi verðbólga nálgast 8%. Verðbólgan hefur verið yfir spá Seðlabankans þennan tíma. Þá benda landsframleiðslutölur fyrstu þriggja fjórðunga ársins til meiri hagvaxtar og framleiðsluspennu á árinu en Seðlabankinn reiknaði með í þjóðhagsspá þeirri sem kom út 1. nóvember.

Á móti vegur að sviptingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu hafa leitt til þess að lánskjör fjármálafyrirtækja hafa versnað og framboð lánsfjármagns hefur dregist saman. Þetta mun draga úr  eftirspurn í hagkerfinu á næstunni og þar með verðbólguþrýstingi. Þá munu eignaverðsáhrif lækkunar á hlutabréfamarkaði að undanförnu einnig draga úr innlendri eftirspurn. Þessu til viðbótar hafa líkur á hægum hagvexti á næstunni í Bandaríkjunum og víðar meðal helstu viðskiptalandanna aukist. Við þetta má bæta að kjarasamningar standa nú yfir en niðurstaða þeirra skiptir miklu varðandi hvert er skynsamlegt næsta skref Seðlabankans.

Greining Glitnis bíst við hörðum tóni Seðlabankamanna í þeim rökstuðningi sem fylgir vaxtaákvörðun þeirra á fimmtudaginn kemur. Að mati Greiningarinnar mun Seðlabankinn halda galopnum þeim möguleika að vextir verði hækkaðir á þarnæsta vaxtaákvörðunarfundi þeirra sem er 14. febrúar næstkomandi og halda stíft fram þeirri skoðun að svigrúm til vaxtalækkunar muni ekki skapast fyrr en eftir mitt næsta ár, segir í Morgunkorni Glitnis.