Greiningardeild Glitnis spár því að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% milli janúar og febrúar. Gangi spáin eftir eykst verðbólgan á milli mánaða úr 6,9% í 7,2%.

?Um er að ræða tímabundið bakslag í hjöðnun verðbólgunnar en hún mun minnka talsvert í mars. Verð á mat- og drykkjarvöru hækkaði talsvert á milli desember i fyrra og janúar í ár eða um 2%. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi hækkun milli janúar og febrúar og að þetta hafi einnig áhrif til töluverðar hækkunar á verði veitingastarfsemi.

Hækkun á verði mat- og drykkjarvöru dregur nokkuð úr áhrifum aðgerða ríkisstjórnar til lækkunar vísitölu neysluverðs í mars. Að þessu sinni gerum við ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis hækki lítillega milli mánaða og að vaxtaþáttur í útreikningum Hagstofunnar auki kostnað við eigið húsnæði eins og hann hefur gert undanfarna mánuði,? segir greiningardeildin.

Þá gerir hún ráð fyrir verðlækkun á fötum og skóm vegna útsölu. ?Útsöluáhrifin verða þó líklegast minni en í janúar. Auk þessa hefur bensínverð á heimsmarkaði lækkað töluvert og krónan styrkst sem hvorutveggja ætti að leiða til lækkunar bensínverðs. Við útilokum því ekki frekari lækkun en bensínverð hefur þegar lækkað um 1,5% í janúar,? segir hún.

Verðbólgan í 5,4% í mars

Greiningardeildin spáir að verðbólgan niður í 5,4% í mars. ?Hagstofan áætlar að lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda leiði til 1,9% lækkunar vísitölu neysluverðs. Við gerum ráð fyrir að lækkun virðisaukaskatts komi að fullu fram í mars en hún er áætluð 1,7%. Lækkun vegna vörugjalda, sem áætluð er 0,2%, mun að okkar mati ekki koma fram fyrr en í apríl. Útsölulok munu þó vega gegn ofangreindum áhrifum skattabreytinga. Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,7% í mars,? segir hún.

Yfir árið

Yfir árið telur greiningardeildin að verðbólga verði 2,9%, samanborið við 6,9% yfir síðastliðið ár.  ?Samanburðurinn markast m.a. af mikilli gengislækkun krónunnar á síðasta ári sem litaði verðbólguþróunina þá en þau áhrif verða mun minni í ár. Einnig mun draga úr þenslu í hagkerfinu á næstunni sem stuðlar að hjöðnun verðbólgunnar. Verðlækkun mun þá líklegast verða einhver á húsnæðisverði í ár samanborið við hækkun í fyrra. Þessu til viðbótar munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvöruverði í mars draga úr verðbólgu í ár. Þessara áhrifa mun ekki gæta í verðbólgu yfir næsta ár.

Líkur eru aðeins meiri á því að verðbólgan verði yfir okkar spá en undir. Meiri kostnaðarhækkun gætu orðið innanlands en við gerum ráð fyrir, t.d. vegna spennu á vinnumarkaði og þenslu. Á móti gæti komið til meiri lækkun verðs íbúða en við reiknum með og snarpari samdráttur í innlendri eftirspurn en við áætlum. Auk þess mun gengisþróun krónu ráða miklu um verðbólgu á næstu misserum en þar er óvissan mikil,? segir greiningardeildin.