Heimsmarkaðsverð á fati af hráolíu gæti farið yfir 200 Bandaríkjadali eftir sex mánuði.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Argun Murti, sérfræðingi hjá Goldman Sachs, en hann vakti athygli fyrir þremur árum en þá spáði hann réttilega að olíufatið færi yfir 100 dali.

Þá var heimsmarkaðsverðið 55 dalir en það er nú í 120 dölum.

Samkvæmt greiningu Goldman Sachs þá gæti olíuverðið fari yfir 200 dali eftir sex til 24 mánuði.

Spáin byggir á því að eftirspurn eykst mikið vegna hins mikla hagvaxtar í Kína og á Indlandi. Risarnir tveir í Asíu keppa því í auknu mæli við Bandaríkin, Evrópusambandið og Japan um olíubirgðir heimsins.

Á sama tíma og eftirspurn eykst þá eiga meiriháttar olíuútflutningsríki í framleiðsluerfiðleikum. Árásir stjórnarandstæðinga í Nígeríu á olíuleiðslur í landinu valda framleiðsluerfiðleikum og að sama skapi er olíuiðnaðurinn í Írak langt frá því að ná fullri framleiðslugetu.

Auk þessa setja árstíðabundnir þættir strik í reikninginn en Bandaríkjamenn ferðast til að mynda markvisst meira um á bifreiðum sínum á sumrin.

Margir hagfræðingar óttast að síhækkandi olíuverð muni hafa alvarleg og hamlandi áhrif á hagvöxt í heiminum ásamt því að valda undirliggjandi verðbólgu í alþjóðahagkerfinu.