Vaxandi spenna á milli Ísrael og Íran hefur valdið því að olíuverð hefur hækkað nokkuð í gær og í dag að sögn Reuters fréttastofunnar.

Nú í hádeginu kostaði tunnan af hráolíu 142,06 Bandaríkjadali í utanþingsviðskiptum á Wall Street og hefur hækkað um 2 dali frá því í gær.

Brent olían í Lundúnum koastði 142,24 dali og þykir það að sögn Reuters gefa til kynna að verðið muni hækka frekar í Bandaríkjunum þegar markaðir opna þar eftir um klukkustund.

Olíutunnan náði hámarki innan dags í gær þegar hún fór í 143,67 dali.

Eins og kunnugt er hefur Ísraelsher æft loftárás undanfarnar vikur og hafa fjölmiðlar greint frá því að fyrir liggi áætlun um að ráðast á kjarnorkuver í Íran og gera þó óvirk. Íran hefur í nokkurn tíma reynt að koma sér upp kjarnorku sem stjórnvöld þar í landi segja að sé til orkunotkunar.

Auk þess er öll kjarnorkuframleiðsla landsins í trássi við samninga alþjóða kjarnorkuráðsins og hafa stjórnvöld bæði í Bandaríkjunum og Ísrael auk annarra vestrænna ríkja sakað Íran um að ætla að koma sér upp kjarnorkuvopnum.