Bandaríska lággjaldaflugfélagið Spirit Airlines hefur staðfest pöntun á 75 Airbus A320 flugvélum. Þar af eru 45 vélar af gerðinni A320neo.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Airbus en skrifað var undir viljayfirlýsingu um pöntun félagsins á flugsýningunni í Dubai í fyrra. Spirit Airlines á eftir að tilkynna um hvaða tegund af hreyflum félagið hyggst kaupa á vélarnar.

Í tilkynningunni er haft eftir Ben Baldanza, forstjóra Spirit Airlines, að A320 vélarnar hafi reynst félaginu mjög vel á sl. sjö árum. Félagið notar vélarnar í innanlandsflugi innan Bandaríkjanna og flug til eyja í Karabíska hafinu og Rómönsku-Ameríku.

Spirit Airlines var stofnað árið 1980 og hét þá Charter One. Flugfloti félagsins telur 37 vélar, allar frá Airbus. Þar er um að ræða 26 A319-100 vélar, 9 A320-200 vélar og 2 A321-200 vélar.