Sparisjóðurinn í Keflavík var „ein stór afleiða“ að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins. Sjóðurinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) í apríl í fyrra og nýr sjóður, SpKef sparisjóður, reistur á grunni hans. Nýja sjóðnum var síðan rennt inn í Landsbankann um síðustu helgi þar sem enginn rekstargrundvöllur var fyrir honum og endurreisn hans hefði kostað íslenska ríkið að minnsta kosti um 20 milljarða króna.

Stjórnendur SpKef sendu fjármálaráðuneytinu síðan bréf föstudaginn 25. febrúar síðastliðinn þar sem fram kom að mat þeirra á eignum sjóðsins hafði rýrnað enn meira og að nú þyrfti hann 19,4 milljarða króna til að vera starfhæfur. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fjölgaði  þeim lánum sem höfðu verið í vanskilum lengur en þrjá mánuði (non-performing loans) hjá sjóðnum mikið við hvert endurmat á eignum hans með ofangreindum afleiðingum.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem komið hafa að endurskipulagningu sparsjóðakerfisins eru reyndar allir á því að rekstur sparisjóðsins í Keflavík hafi verið í besta falli vafasamur. Einn þeirra sagði að „þessi sparisjóður var ein stór afleiða.“

Þess utan var sjóðurinn að verða uppiskroppa með laust fé til rekstrarins á þessum tímapunkti.