Klukkunni hér á landi verður ekki seinkað um eina klukkustund líkt og rætt hefur verið um öðru hvoru undanfarin ár. Þetta er niðurstaða vinnu sem staðið hefur yfir í Stjórnarráðinu síðustu misseri. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að málefnið hafi verið rætt nýverið í ríkisstjórninni og að þessi niðurstaða verði kunngjörð á næstunni.

Í janúar 2018 skilaði starfshópur, skipaður af Óttari Proppé, þáverandi heilbrigðisráðherra, til að meta fýsileika þess að breyta klukkuskráningunni hér á landi, minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Niðurstaða hópsins var meðal annars sú að því fylgdu ýmsir kostir að breyta fyrirkomulaginu hér á landi.

Uppfært 08:52 Heimildir Viðskiptablaðsins reyndust réttar en Stjórnarráðið staðfesti þær með tilkynningu núna rétt í þessu.

Ekki lá fyrir hvaða ráðherra stýrði tímamálum hér á landi en á endanum var ákveðið að samkvæmt forsetaúrskurði félli hann undir forsætisráðherra. Í byrjun síðasta árs var sett í Samráðsgátt stjórnvalda könnun þar sem landsmönnum gafst kostur á að segja hug sinn til mögulegra breytinga. Meirihluti þeirra, um 56%, sem sendu inn umsögn voru á því að rétt væri að breyta klukkunni en ríflega þriðjungur var hlynntur óbreyttu ástandi.

Upphaflega stóð til að niðurstaða fengist í málið á fyrri hluta þessa árs, eða í kringum vorjafndægur, en málið endaði í salttunnu stjórnvalda meðan slökkvistörf vegna veirufaraldursins stóðu yfir. Sumarið var meðal annars nýtt til þess að taka hluti úr pæklinum en sem fyrr segir herma heimildir blaðsins að breyttur staðartími á Íslandi verði ekki meðal þess sem lagt verður fyrir þingið í haust.

Helstu andstæðingar mögulegra breytinga á staðartíma hafa vanalega komið úr röðum íþróttahreyfingarinnar enda myndu breytingar þýða að sólskinsstundir á vökutíma að sumri yrðu færri. Golfhreyfingin lagðist til að mynda gegn mögulegum breytingum.

Það að fara úr GMT+0 yfir í GMT-1 hefur einnig mætt talsverðri andstöðu af hálfu Icelandair Group en sem kunnugt er stefnir félagið að því að safna nýju hlutafé á næstu dögum. Undanfarnar vikur hefur félagið unnið að því að semja við flugstéttir og kröfuhafa til að draga úr mögulegri rekstraróvissu næstu ára.

„Í dag mætir áhöfn til vinnu vegna flugs til London kl. 6, strax að lokinni næturhvíld. Brottför frá Keflavík er kl. 7:40 og áætluð koma til London kl. 10:50 að morgni Ef einnar klukkustundar breyting verður á klukku á Íslandi og flugið færi frá Keflavík kl. 7:40 þyrfti komutími í London að vera kl. 11:50 að morgni, klukkustund síðar en nú er. Á þeim tíma eru engir afgreiðslutímar lausir á flugvellinum. Icelandair yrði því að reyna að skipta á afgreiðslutímum við annað flugfélag eða kaupa nýjan afgreiðslutíma en litlar líkur eru á að slíkt tækist. Þetta mundi líklega valda því að London, einn af lykiláfangastöðum félagsins, gæti ekki verið hluti af leiðarkerfi félagsins. Sömu rök gilda um marga aðra áfangastaði,“ sagði meðal annars í umsögn Icelandair um málið á síðasta ári.