Landsréttur staðfesti í dag lögbann sem Eldum rétt ehf. hafði farið fram á gegn Álfasögu ehf. vegna vörumerkisins „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“. Álfasögu ber einnig að greiða Eldum rétt 1,2 milljónir króna í málskostnað í héraði og Landsrétti.

Málið á rætur sínar að rekja til vormánaða 2017. Þá urðu forsvarsmenn Eldum rétt þess áskynja að Álfasaga væri að nota auðkennið „Borðum rétt“. Eldum rétt hafði fengið skráningu á vörumerkinu „Eldum rétt“. Síðar sama ár sótti Álfasaga skráningu á vörumerkinu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“.

Í árslok 2017 óskuðu forsvarsmenn Eldum rétt eftir því að Álfasaga léti af þessari háttsemi. Þeirri fyrirspurn var svarað á þá leið að félagið ætlaði að kanna stöðu sína og svara á nýju ári. Það var ekki gert og sendi Eldum rétt ítrekun í október 2018 sem ekki var brugðist við.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst á lögbannsbeiðni Eldum rétt í júní 2019 en í því fólst að lögbann yrði lagt á notkun Álfasögu á auðkenninu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“ og að félagið fengi að starfrækja heimasíðuna bordumrett.is.

Eldum rétt fór með málið til Héraðsdóms Reykjaness til að þess að lögbannið yrði viðurkennt með dómi. Héraðsdómur synjaði kröfunni í desember 2019 þar sem viðurkenningarkrafa Eldum rétt var að mati dómsins vanreifuð óskýr, of víðtæk og óákveðin.

Eldum rétt áfrýjaði dómnum til Landsréttar í lok árs 2019. Landsréttur féllst á kröfu áfrýjanda um að Álfasögu sé óheimilt að nota téð tákn til sölu og  markaðssetningar  á matarpökkum og tengdri vöru og þjónustu svo og að starfrækja  heimasíðuna www.bordumrett.is. Einnig var Álfasögu dæmt að greiða 1,2 milljónir króna í málskostnað.