Ástralski vínrisinn Treasury Wine Estates (TWE) tapaði 94 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæpum 11 milljörðum íslenskra króna, á síðasta rekstrarári.

Samkvæmt frétt BBC um málið er þetta í fyrsta sinn frá stofnun þess sem fyrirtækið skilar neikvæðri rekstrarniðurstöðu fyrir heilt ár.

Ástæða tapsins er rakin til þess að sala dróst saman í Kína og Bandaríkjunum. Fyrirtækið þurfti t.am. að eyða mörg þúsund vínflöskum vegna offramboðs í Bandaríkjunum.

TWE er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heimi og á merki eins og Wolf Blass, Rosemount og Lindeman's, auk þess sem þekktasti vínframleiðandi Ástralíu, Penfolds, er í eigu fyrirtækisins.

Eins og VB.is greindi frá hafa fjárfestar sýnt ástralska vínframleiðandanum mikinn áhuga að undanförnu og hefur TWE fengið tvö yfirtökutilboð í reksturinn, hvort um sig upp á nokkra milljarða dala.