Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Myrkur Games tilkynnti í gær um samstarf við nýja leikjaútgefandann Prime Matter, sem fellur undir þýsku Koch Media samstæðuna. Prime Matter mun gefa út fyrsta tölvuleik Myrkurs sem ber nafnið Echoes of the End.

Halldór Snær Kristjánsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Myrkurs, lofar útgefandanum í hástert og segir að þó hann sé nýr þá hafi hann alla burði til að verða meðal þeirra fremstu í tölvuleikjaiðnaðinum.

„Þetta eru stærstu kaflaskil hjá fyrirtækinu frá upphafi. Prime Matter kemur inn með fjárhagslegan stuðning sem gerir okkur kleift að keyra fullt áfram og einblína alfarið á þróun leiksins. Þeir hjálpa okkur m.a. við dreifingu, markaðssetningu og þýðingu á leiknum yfir á önnur tungumál. Samstarfið hjálpar okkur því að koma leiknum almennilega á framfæri og stækkar markaðsgetu leiksins margfalt,“ segir Halldór í samtali við Viðskiptablaðið.

Echoes of the End var meðal tólf tölvuleikja sem kynntir voru til leiks í stiklu frá Prime Matter á leikjaráðstefnunni Summer Game Fest í gær en yfir 1,3 milljónir manns fylgdust með streyminu. Halldór segir að þetta hafi verið fyrsta alþjóðlega stiklan úr Echoes og að fréttamiðlar um allan heim hafi sýnt leiknum áhuga undanfarinn sólarhring.

„Það er frábært að sjá alla þessa leiki sem eru hluti af þessu verkefni og mikill heiður fyrir okkur, frá pínulitla Íslandi, að fá að vera partur af svona stórum alþjóðlegum viðburði. Að setja upp svona vinnusamband er alveg einstakt og í raun ótrúlegt,“ segir Halldór.

Með eigið upptökuver úti á Granda

Alls starfa nú átján á nýrri skrifstofu Myrkurs úti á Granda, auk leikara og ýmis verktaka, en fyrirtækið auglýsti einnig nýlega fjölda starfa. Nálægt skrifstofunni er fyrirtækið með sitt eigið hundrað fermetra hreyfirakningar, eða „motion-capture“ upptökuver.

Í Echoes stíga leikmenn í fótspor Ryn, leikin af Aldísi Amah Hamilton, sem var nokkuð áberandi í stiklu Prime Matter. Aldís og aðrir leikarar klæðast hreyfirekjanlegum göllum sem nema líkamshreyfingar og hjálma sem taka upp andlitshreyfingar og hljóð, en fyrir vikið verða hreyfingarnar í leiknum raunverulegar. Auk þess hefur Myrkur Games smíðað ljósmyndaskanna sem er notaður til að skapa raunverulega tölvugerða tvífara innan leiksins, til þess að persónur í leiknum líta alveg eins út og leikararnir.

Echoes of the End er sögudrifinn hasar-ævintýraleikur sem gerist í nýjum fantasíuheimi með vísindaskáldskaps ívafi. Leikurinn byggir á Unreal Engine 5 vélinni sem er hönnuð fyrir næstu kynslóð tölvuleikja- og borðtölva.