Lánshæfismatsfyrirtækið Standard og Poor's (S&P) staðfesti í dag einkunnir fyrir erlendar skuldbindingar í fjárfestingarflokki. Lánshæfiseinkunnir í innlendum gjaldmiðli voru lækkaðar um eitt þrep.

Lánshæfiseinkunnir Ríkissjóðs Íslands, BBB/A-3, voru staðfestar fyrir erlendar skuldbindingar vegna stöðugleika til skamms tíma. Lánshæfiseinkunnir í innlendum gjaldmiðli verða BBB/A-3 en horfur eru neikvæðar.

„Við teljum að til skemmri tíma hafi áhætta í íslensku hagkerfi minnkað. Við teljum að erlend lausafjárstaða verði áfram veik, en stöðug, þar sem gjaldeyrishöft verða áfram til staðar og bæta fyrir þá töf sem hefur orðið á útgreiðslu erlends lánsfjár (e. official disbursements),“ segir í lauslegri þýðingu Seðlabankans á frétt S&P.

Sem fyrr segir staðfestir S&P BBB-/A-3 einkunn sína fyrir erlendar langtíma- og skammtímaskuldbindingar Íslands.

„Hins vegar, ef gjaldeyrishöftin festa sig í sessi til lengri tíma, munu þau draga úr sveigjanleika Íslands á sviði peninga- og ríkisfjármála og úr fjárfestingu,“ segir í fréttinni.

„Þar af leiðir að við lækkum lánshæfismat okkar fyrir innlendar langtíma- og skammtímaskuldbindingar í BBB/A-3 úr BBB+/A-2. Við munum taka allar lánshæfiseinkunnir af gátlista, þar sem þær hafa verið með neikvæðum horfum frá 5. janúar 2010.“

Þá segir loks að neikvæðar horfur endurspegli hættu á lækkuðu lánshæfismati ef það slitnar upp úr samningaviðræðum um Icesave, sem dregur úr líkum á erlendri fjárfestingu og eykur þrýsting á erlenda lausafjárstöðu að mati S&P.

Sjá þýðinguna í heild sinni hér.