Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur til athugunar lánshæfiseinkunnir fyrir langtímaskuldbindingar ríkissjóðs með neikvæðum vísbendingum (e. credit watch with negative implications). Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Fréttin hefur þegar birst á fréttaveitunni Bloomberg og mun innan skamms birtast á heimasíðu Seðlabankans.

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hjá Standard & Poor’s eru A+/A-1 fyrir skuldbindingar í erlendri mynt og AA/A-1+ fyrir skuldbindingar í íslenskum krónum.

Skortur á upplýsingum um stefnu ríkisstjórnarinnar

Í greinagerð S&P‘s segir að ástæða endurskoðunar matsfyrirtækisins sé skortur á upplýsingum um aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi efnahagsstjórn landsins. Þá kemur fram að mikil pressa sé nú á ríkissjóð að bregðast við og styðja íslensku bankanna, Glitni, Landsbankann og Kaupþing.

Búist er við lokaniðurstöðu S&P‘s innan tveggja vikna.

Íbúðarlánasjóður og Landsvirkjun

Að auki tekur S&P‘s Íbúðarlánasjóð og Landsvirkjun til athugunar með neikvæðum vísbendingum.

Einkunn Íbúðarlánasjóð og Landsvirkjunar er nú A+ fyrir skuldbindingar í erlendri mynt og AA- fyrir skuldbindingar í íslenskum krónum.