Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur sett af stað vinnu við samningu frumvarps um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Til að aðstoða við þá vinnu hefur ráðherrann sett á fót ráðgjafahóp.

Ráðgjafahópinn skipa þau Karl Axelsson lögmaður, Lúðvík Bergvinsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar lagadeildar Háskólans í Reykjavík, Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Helga Sigurrós Valgeirsdóttir aðstoðarmaður ráðherra. Helga mun jafnframt sýtra vinnu hópsins.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að hópnum er falið að vinna með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar „[...] með tillögu sáttanefndar sem starfaði á liðnu kjörtímabili um að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.“ Sáttanefndin svokallaða skilaði tillögum sínum til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra haustið 2010. Meginniðurstaða nefndarinnar var að skýrt ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum yrði sett í stjórnarskrána og samningar gerðir um nýtingu aflaheimilda. Með því væri því slegið föstu að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu í tiltekinn tíma.