Landsbankinn hefur ákveðið að sameina útibú Sparisjóðs Norðurlands á Suðureyri og Bolungarvík við útibú Landsbankans á Ísafirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. „Síðasti afgreiðsludagur útibúanna á Suðureyri og Bolungarvík verður 24. september, en póstafgreiðsla á vegum bankans í Bolungarvík verður opin til 30. október." Að sama skapi verður afgreiðslu Landsbankans á Þingeyri lokað.

„Hluti starfsfólks í útibúinu í Bolungarvík mun hefja störf í útibú Landsbankans á Ísafirði en samtals láta 11 manns af störfum vegna þessara breytinga," segir í tilkynningu bankans. Vonast er til að lokunin hafi sem minnst áhrif á viðskiptavini og þjónusta skerðist eins lítið og unnt er.

Rafræn viðskipti fyrirferðameiri

„Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi banka á undanförnum árum. Meira en 80% allra samskipta viðskiptavina við banka eru nú rafræn og þetta hlutfall fer hækkandi. Af þeim sökum er síður þörf fyrir hefðbundin útibú og afgreiðslur en verið hefur. Þá er afar rík krafa um hagræðingu í bankakerfinu í heild og leggur Landsbankinn áherslu á að draga úr kostnaði í sínum rekstri," segir í tilkynningu.

Þá kemur fram að ekki standi til að loka á Dalvík, Þórshöfn, Raufarhöfn eða Kópaskeri. „Landsbankinn mun því áfram reka lang víðfeðmasta útibúanetið á landinu. Eftir samruna við Sparisjóð Vestmannaeyja og Sparisjóð Norðurlands hefur útibúum og afgreiðslum Landsbankans fjölgað á ný og eru nú 37 talsins."

Landsbankinn og Sparisjóður Norðurlands sameinuðust formlega 4. september síðastliðinn.