Eftir að lánasamningur við FS38 ehf. var gerður, og sex milljarðar króna greiddir út úr Glitni, voru tveir milljarðar króna færðir inn á hlaupareikning Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar. Þaðan var einn milljarður króna færður beint inn á persónulegan hlaupareikning Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, Pálma, Lárusi Welding og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008. Viðskiptablaðið hefur í dag birt valda kafla úr stefnunni. Þessi hluti, sá áttundi,er sá síðasti sem birtur verður.

Lánasamningurinn loks gerður

Þann 16.júlí 2008 var gerður lánasamningur milli FS38 og Glitnis að fjárhæð sex milljarðar króna með gjalddaga ári síðar. Að veði voru sett bréfin í Aurum sem nú eru verðlaus auk þess sem Fons tók á sig 1,75 milljarða króna tímabundna sjálfsskuldarábyrgð þar til að tækist að selja Aurum-bréfin til nýs fjárfestis. Sá nýji fjárfestir varð aldrei að veruleika.  Tveir milljarðar króna voru millifærðir á hlaupareikning Fons, sem greiddi samstundis einn milljarð króna inn á persónulegan hlaupareikning Jóns Ásgeirs. 250 milljónir af þeirri upphæð voru notaðar til að greiða niður yfirdrátt hans hjá Glitni en að auki fékk Jón Ásgeir 750 milljónir króna persónulega til frjálsrar ráðstöfunar.

Fléttunni sem sett var af stað í maí lýkur

Samhliða lánasamningnum gerðu Glitnir og Fons með sér söluréttarsamning. Samkvæmt stefnunni fólst í Í honum  „að Fons gat selt FS38 til Glitnis á eina krónu. Þann 30. desember  2008, eftir bankahrun, tilkynnti Fons að félagið ætlaði sér að nýta sér söluréttinn og komst FS38 þá í eigu bankans sem stóð uppi með sex milljarða króna lánið og hlutabréfin í Aurum í sinni samstæðu. Lauk þar fléttunni sem var sett af stað í maí 2008 af stefndu Jóni Ásgeiri, Pálma og Lárusi.“

Ekkert fékkst upp í lánið

Þegar lánið var á gjalddaga í júlí 2009 voru engar eignir inni í FS38 til að mæta greiðslu þess. Fons hafði auk þess verið tekið til gjaldþrotaskipta níu mánuðum eftir veitingu lánsins, eða þann 30. apríl 2009. Verðgildi bréfanna í Aurum var þá ekkert enda var félagið í verulegum fjárhagsvandræðum og allir hluthafar höfðu fallist á að afskrifa hlutafé sitt í því. Landsbankinn, sem var helsti kröfuhafi Aurum, breytti á móti kröfum sínum í hlutafé. Í stefnunni segir að því liggi „fyrir að krafa bankans á hendur FS38 ehf. samkvæmt téðum lánasamningi er töpuð“.