Fyrstu átta mánuði þessa árs erum gestir í Jarðböðin í Mývatnssveit rétt um 45 þúsund talsins. Rekstur Baðfélags Mývatnssveitar ehf., sem Kaupfélag Eyfirðinga á 22,5% hlut í, hefur gengið ágætlega á þessu ári og að óbreyttu verður rekstrarniðurstaða ársins í takt við áætlanir, en þetta er fyrsta heila rekstrarár Jarðbaðanna við Mývatn.

Í sumar hafa um 60% gesta verið útlendingar og um 40% Íslendingar en þetta hlutfall snýst við yfir vetrarmánuðina. Í júní sl. var búningsaðstaða við Jarðböðin stækkuð með uppsetningu útiklefa. Þessi viðbót hefur nýst mjög vel á álagstímum í sumar. Þá er búið að leggja veginn að Jarðböðunum, frá þjóðvegi eitt, bundnu slitlagi og bróðurpart bílastæðanna við böðin.

Hafin undirbúningsvinna vegna mögulegrarar meðferðarstofnunar sem yrði komið á fót í tengslum við böðin í samvinnu við Heilsustofnun Þingeyinga. Þessi hugmynd hefur verið kynnt ráðamönnum og næsta skref er að vinna viðskiptaáætlun vegna verkefnisins og útkoma hennar ræður töluverðu um framhaldið.

Þess má geta að í haust er von á stórum hópum Japana í Jarðböðin en þá verður efnt til sex beina flugferða frá Japan til Íslands á breiðþotum.