Á ári hverju gefur Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) út skýrslu þar sem spáð er fyrir um fjárútlát Íslendinga í hátíðarinnkaupum og gjafakaupum í þeim verslunarham sem heltekur landann fyrir jólin. RSV hefur staðið að skýrslugerð um væntingar til smásöluverslunar og útgjalda íslenskra heimila fyrir jólin síðan 2005, en samkvæmt spánni í ár áætlar RSV að jólaverslunin muni veltan nái nýjum hæðum.

Í gegnum árin hefur spálíkan RSV nokkurn veginn náð að hitta í mark, að árunum í kringum hrun að undanskildu þegar öll spálíkön brugðust, en væntingar RSV hafa oftar en ekki verið lítillega undir raunverulegri veltuaukningu. Spáin byggir á hagtölum Hagstofunnar og aðstæðum í efnahagslífinu hverju sinni. Spáin í ár er tekin saman af þeim Emil B. Karlssyni, forstöðumanni RSV, og Árna Sverri Hafsteinssyni, sérfræðingi við Háskólann á Bifröst.

85 milljarða króna velta

Fyrir jólaverslunina í ár áætlar RSV að smásöluverslun í nóvember og desember muni velta 85 milljörðum króna án virðisaukaskatts. Á sama tímabili í fyrra nam veltan 77 milljörðum án VSK á breytilegu verðlagi. Um er að ræða 10,3% heildarvöxt milli ára á nafnvirði en 8% á föstu verðlagi, borið saman við 6,6% nafnvöxt (4,9% raunvöxt) í fyrra frá árinu þar áður. Ef spáin rætist verð­ ur vöxturinn í jólaverslun í ár sá mesti sem sést hefur frá bankahruni 2008.

Gert er ráð fyrir að vöxtur í sérvöruverslun verði meiri en í dagvöruverslun, enda er sala á sérvörum sveiflukenndari eftir hagsveiflum. Spáð er 8,5% aukningu í veltu dagvöruverslana milli ára og um 11,2% vexti í annarri tegund smásöluverslunar. Raunvelta í dagvöru er 8% meiri en hún var árið 2007, en flestar tegundir sérvöruverslunar eiga enn talsvert í land með að ná fyrri hæðum.

Hver Íslendingur kemur til með að verja að jafnaði 53.813 kr. í nóvember og desember til innkaupa vegna jólanna í ár, samkvæmt skýrslunni. Um er að ræða 9% aukningu frá fyrra ári, þegar útgjöldin námu 49.156 kr., en sama tímabili eykst mannfjöldinn í landinu um 1,1% samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Spáð er að jólaneysla á mann í sérvöru með VSK verði 43.136 kr. (10% aukning) en að í dagvöru með VSK verði hún 10.677 kr. (7,3% aukning).

Fjögurra manna fjölskylda ver þá um 215 þúsund krónum til jólahalds í ár, með 172,5 þúsund í sérvöru og 42,7 þúsund í dagvöru.

Spáin tekur aðeins tillit til innlendrar verslunar, en út frá þróun kreditkortaveltu Íslendinga erlendis má gera ráð fyrir enn meiri vexti verslunar í útlöndum en hérlendis. Í september síðastliðnum var veltan 12,5% meiri en fyrir ári og fjöldi færslna erlendis 31,5% meiri.

Að sögn Emils er staðan ekki eins og rétt fyrir hrun. „Það sem er áhugavert í þessu, fyrir utan þann neysludrifna hagvöxt sem er í gangi og þann vöxt sem við sjáum í kortunum, er að heimilin eru ekki að eyða um efni fram eins og gerðist hér áður fyrr. Vöxtur kaupmáttar er almennt meiri en vöxtur einkaneyslunnar, þannig að heimilin eru ekki að eyða umfram kaupgetu,“ segir Emil. Þannig ríkir meiri yfirvegun í kaupum á neysluvörum í dag og má því segja að það sé minna bruðl og meiri fyrirhyggja í jólainnkaupunum í ár borið saman við fyrri ár.

Nánar er fjallað um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins, Jólahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .