Skuldabréfasjóður Stefnis hefur verið verðlaunaður annað árið í röð af breska fagtímaritinu World Finance Magazine fyrir bestu eignastýringu á Íslandi á sviði skuldabréfa. Þetta kemur fram á heimsíðu fyrirtækisins .

World Finance er alþjóðlegt fagtímarit á sviði fjármála og veitir árlega verðlaun þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt framúrskarandi árangur að þeirra mati. Við veitingu verðlaunanna til Stefnis var meðal annars horft til þátta er snúa að langtíma árangri, áhættustýringu og innri stjórnarháttum.

Í nýjasta tölublaði tímaritsins er að finna viðtal við Önnu Kristjánsdóttur forstöðumann skuldabréfateymis Stefnis. Í viðtalinu fjallar Anna um tækifæri á skuldabréfamarkaði á Íslandi, mikilvægi gagnsæis í eignastýringarstarfsemi og hvaða áskorunum markaðurinn stendur frammi fyrir nú.