Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir það miður að fyrirtæki þurfi að grípa til uppsagna í því árferði sem nú ríkir í efnahagsmálum. Það hafi hins vegar verið fyrirsjáanlegt í ljósi samdráttar í efnahagslífinu.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, sagði í gær, eftir fyrirtækið hafði sagt yfir um 35 manns upp störfum og minnkað starfshlutfall sem nemur fimm stöðugildum, að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar væru „skelfilegar". Hækkun skatta, virðisaukaskatts og opinberra gjalda myndi því miður leiða til mikils samdráttar og uppsagnirnar væru bein afleiðing af skattahækkanaáformum. Auk þess væru sérstakir skattar á vörur eins og gos og fleira, en ekki Kókómjólk og Cocoa Puffs, stórskaðlegir og undarlegir.

Aðspurður sagðist Steingrímur telja samdrátt í efnahagslífi vera grundvallarástæður þess að segja þurfi upp fólki.

„Ég heyrði það, a.m.k. í einu viðtalinu, að uppsagnirnar sem er verið að grípa til megi rekja til samdráttar í efnahagslífinu, frekar en skattahækkana. Ég held að það megi fyrst og fremst rekja uppsagnir til samdráttarins, og hagræðingu í rekstri vegna hans, frekar en aðgerða í ríkisfjármálum. Staðan í efnahagsmálum kallar því miður á að gripið sé til róttækra aðgerða sem allt þjóðfélagið finnur fyrir. Framleiðslugreinar hafa að mörgu leyti staðið betur að vígi en margir aðrir, vegna veikingar krónunnar. Innflutningur hefur minnkað sem hefur skapað tækifæri fyrir framleiðslu og útflutning."