Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að aðalmeðferð í  Stím-málinu mun þurfa að fara aftur fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta kemur fram í frétt Vísis .

Ástæðan er vanhæfni Sigríðar Hjaltested sem var einn þriggja dómara í málinu í héraði. Fyrrverandi eiginmaður Sigríðar kom við sögu í gögnum málsins. Hún sagði sig einnig frá máli sem varðar efnahagshrunið í nóvember síðastliðnum en fyrrverandi eiginmaður hennar starfaði hjá Glitni. Þegar dæmt var í málinu í lok árs árið 2015 var fyrrverandi eiginmaður Sigríðar með stöðu sakbornings í þremur málum hjá sérstökum saksóknara.

Í Stímmálinu var Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, dæmdur í fimm ára fangelsi. Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, var dæmdur í 2 ára fangelsi auk þess sem Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Voru þeir dæmdir fyrir lánveitingar Glitnis til hlutabréfakaupa í Glitni og FL group.

Í frétt MBL kemur fram að samkvæmt dómnum hafi Sigríður vitað á þeim tíma sem hún dæmdi í Stím-málinu að fyrrverandi eiginmaður hennar hefði stöðu sakbornings. Skömmu áður en dæmt var í Stím-málinu var önnur ákæra gefin út gegn stjórnendum Glitnis í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli bankans. Sagði Sigríður sig frá því máli þar sem hún taldi sig skorta hæfi til að dæma í málinu og vísaði til þess að fyrrverandi eiginmaður sinn hafi starfað hjá bankanum og væri með stöðu sakbornings í öðrum málum.

Taldi Hæstiréttur að tengsl og aðstæður í Stím-málinu væru í öllu verulega sambærilegar þeim sem í hinu málinu var talið að dómaranum hefði borið að víkja sæti.