Vilhjálmur Bjarnason, formaður Félags fjárfesta, hefur unnið mál sitt gegn stjórn Glitnis í undirrétti. Dómurinn taldi að þegar á allt er litið er það hafi stjórn Glitnis banka hf., hvorki gætt hagsmuna bankans né hluthafa er hún gekk frá kaupum á hlutum Bjarna Ármannssonar á yfirverði.

Stjórnin mismunaði einnig hluthöfum bankans. Henni bar að sýna ráðdeild við meðferð eigna bankans en það gerði hún ekki í þessu tilfelli. Niðurstaða dómsins er því sú að stefndu hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með samningsgerð þessari og beri því með vísan til 134. gr. hlutafélagalaga og almennu skaðabótareglunnar að greiða stefnanda bætur.

Aðalkrafa stefnanda byggist á því að honum beri bætur að fjárhæð 1.901.442 kr. þar sem honum hafi ekki verið gefinn kostur á því að selja bankanum hlutabréf sín á genginu 29 og kaupa þau aftur á genginu 26.66.

Þar sem stjórn Glitnis hf., þ.e. stefndu, öfluðu Bjarna Ármannssyni ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa og félagsins, þá mismunuðu þau hluthöfum bankans segir í dómnum. Stefndu bera ábyrgð á því.

,,Með því að fyrir liggur gengi er hlutir Bjarna Ármannsonar voru keyptir á, svo og meðalverð á hvern hlut samkvæmt gengi í Kauphöllinni þennan dag, þá telst nægjanlega sannað að stefnandi hafi orðið af hagnaðarvon vegna þessarar ólögmætu ráðstöfunar stefndu. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Ber því  að taka aðalkröfu stefnanda til greina.  Bæturnar skulu bera vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2007 til þingfestingardags sem var 21. maí 2008, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi og til greiðsludags," segir í dómnum.