Stjórn Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) hefur ákveðið að hækka hlutafé félagsins um 158 milljónir að nafnverði og hefur ráðið Glitni til að selja hlutaféð á genginu 38 krónur á hlut, segir í tilkynningu.

TM segir að tilgangur hlutafjársölunnar er að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins vegna kaupa á norska tryggingarfélaginu NEMI.

Glitnir hefur sölutryggt sölu allra hluta í útboðinu, en Straumur-Burðarás veitti TM ráðgjöf vegna kaupanna á Nemi og sá um útgáfu á víkjandi skuldabréfum til að fjármagna kaupin.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's taldi skuldabréfaútgáfu TM ekki fullnægja kröfum sínum, sem hafði þau áhrif að matseinkunn NEMI lækkaði úr BBB í BBB-mínus.

TM sagði í tilkynningu í september, þegar tilkynnt var um hlutafjárútgáfuna, að matseinkunn sé mikilvæg í alþjóðaviðskiptum og til að tryggja að Nemi geti tekið þátt í þeim af fullum þunga eins og hingað til og að ekki verði vafi um einkunnina hefur þessi ákvörðun um hlutafjáraukninguna verið tekin.

TM væntir þess að einkunn Nemi muni færast til fyrra horfs í framhaldinu sagði í tilkynningunni.