Gert er ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir setji á laggirnar nefnd eða vinnuhóp til að ræða þá hugmynd að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í samtali við Ríkisútvarpið nú síðdegis.

Hann býst þó ekki við að niðurstaða náist áður en krónan fer á flot, en það gerist á allra næstu dögum , segir Geir.

Bregst við þrýstingi um að bankastjórn víki

Hugmyndin að sameiningu FME og SÍ var rædd á þingflokksfundi sjálfstæðismanna í dag. Geir nefndi þessa hugmynd við fjölmiðla í gærkvöld, að eigin frumkvæði. Með því er hann, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, að bregðast við þrýstingi frá Samfylkingunni um að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans.

Samfylkingin telur traust og trúverðugleika forsendu þess að hægt sé að fylgja eftir áætlun stjórnvalda sem sett var saman vegna fjárhagsstuðnings frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Til að skapa það traust og þann trúverðugleika þurfi að breyta um stjórn í Seðlabankanum.