Tveimur einstaklingum hefur verið gert að víkja úr stjórn eftir viðtal hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) um hæfi stjórnarmanna eftirlitsskylda aðila og eru mál þriggja til athugunar. Þá eru dæmi um að einstaklingar hafi hætt í stjórnum eftirlitsskyldra félaga áður en til viðtals kom.

Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður FME, sagði m.a. á ársfundi eftirlitsins í dag, að umfjöllun Rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun hafi verið samfelldur áfellisdómur yfir stjórnum bankanna. Af þeirri umfjöllun að dæma hafi störf stjórna einkennst af undirgefni við stjórnendur, skort hafi á eftirliti og reksturinn einkennst af almennu þekkingarleysi.

„Fjármálaeftirlitið tók upp gjörbreytt verklag við athugun á hæfi stjórnarmanna fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara og lífeyrissjóða árið 2010. Nýtt verklag felur meðal annars í sér að stjórnarmenn eru boðaðir í viðtal hjá ráðgjafarnefnd sem stofnuð var. Viðtöl ráðgjafarnefndar taka að jafnaði fjórar klukkustundir þar sem könnuð er kunnátta og viðhorf stjórnarmanna. Nefndin hefur hitt ríflega eitt hundrað stjórnarmenn og langflestir, en ekki alveg allir, hafa sýnt fram á fullnægjandi þekkingu annað hvort í fyrsta viðtali eða í endurteknu viðtali,“ sagði Aðalsteinn.

Ræða Aðalsteins Leifssonar á ársfundi FME