Nýr meirihluti mun taka við völdum á löggjafarþinginu í Venesúela á morgun. Sósíalistaflokkurinn sem var lengi undir stjórn Hugo Chavez hefur verið við stjórn í landinu í 17 ár, en á þeim tíma hafa lífskjör í landinu hrakað verulega. Fyrir þremur áratugum voru lífsgæði í Venesúela með þeim hæstu í Suður-Ameríku. Landið ræður m.a. yfir stærri olíulindum en Sádí-Arabía en í dag er ekki hægt að kaupa klósettpappír í landinu.

Fráfarandi stjórn hefur ekki farið friðsamlega frá völdum, en þeir hafa nýtt síðustu vikur síns meirihluta til að breyta lögum og skipa fjölda embættismanna til að festa byltingu sósíalista í sessi. Meðal skipana fráfarandi meirihluta voru þrír dómarar til Hæstaréttar Venesúela. Dómstóllinn dæmdi þær skipanir þó ógildar, en fráfarandi meirihluti kallaði þá ákvörðun valdarán dómstóla.

Fengu 67% þingsæta

Í þingkosningum sem fóru fram í byrjun desember vann stjórnarandstöðuflokkurinn, undir forystu Henrique Capriles, aukinn meirihluta þingsæta, eða 112 af 167 þingsætum. Slíkur meirihluti gerir stjórnarandstöðunni kleift að hafa töluverð áhrif á ríkisstjórn landsins, en hún er skipuð af forseta landsins sem er kosinn í aðskildum kosningum. Þingstyrkurinn er jafnvel nægilega til að kalla til forsetakosninga áður en að kjörtímabilinu er lokið. Núverandi forseti, Nicolás Maduro, er arftaki Hugo Chavez og hefur gagnrýnt nýjan meirihluta harðlega og segir hann hafa keypt atkvæði.

Capriles segir að fráfarandi meirihluti virði ekki lýðræðið og sé ekki tilbúinn að sætta sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga í landinu.