Forstjóri og framkvæmdastjórar N1 geta átt von á því að fá að hámarki 3 til 4-föld mánaðarlaun að hámarki í formi árangurstengdra bónusgreiðslna á næsta ári. Kaupaukakerfið tekur gildi um næstu áramót. Bónusgreiðslurnar gætu numið frá 6 til um 19 milljónum króna ef miðað er við heildarlaun forstjóra og lykilstjórnenda N1 í fyrra.

Útboði með hlutabréf N1 er lokið og er stefnt að skráningu þeirra á markað 19. desember næstkomandi.

Fram kemur í skráningarlýsingu N1 að forstjórinn Eggert Benedikt Guðmundsson var með tæpar 19,4 milljónir króna í laun í fyrra. Hann hóf störf í september árið 2012 og jafngildir það að hann hafi verið með 4,8 milljónir króna í laun, hlunnindi og kaupauka á mánuði. Bónusgreiðslur gætu samkvæmt því hlaupið á 13 til 19 milljónum króna. Þær gætu þó orðið eitthvað lægri ef hlunnindi og kaupaukar eru dregnir frá.

Tveir aðrir lykilstjórnendur voru hvor með 23,5-26,4 milljónir króna í laun, hlunnindi og kaupauka. Miðað við þá tölu gætu bónusgreiðslur orðið að hámarki 8,8 milljónir króna.

Í skráningarlýsingu N1 stendur orðrétt um samninga við lykilstjórnendur:

„Starfssamningar félagsins við lykilstjórnendur innihalda engin óvenjuleg ákvæði og eru í samræmi við hefðbundna samninga. Stjórn félagsins hefur samþykkt kaupaukakerfi fyrir forstjóra og framkvæmdastjóra sem tekur gildi frá næstu áramótum og miðar árangurstengdar greiðslur við rekstrarárangur en þær geta að hámarki numið 3-4 mánaðarlaunum árlega. Í ráðningarsamningum lykilstjórnenda eru ákvæði um bann við störfum fyrir samkeppnisaðila í 12-24 mánuði eftir starfslok hjá félaginu. Uppsagnarfrestur lykilstjórnenda er tólf mánuðir nema hjá fjármálastjóra átján mánuðir. Félagið hefur ekki lagt greiðslur til hliðar vegna lífeyrisframlags, starfsloka eða svipaðra hlunninda til viðbótar við það sem lög gera ráð fyrir. Hluti lykilstjórnenda nýtur samkvæmt starfssamningum sínum sérstaks lífeyrisframlags umfram kjarasamninga og er það greitt mánaðarlega inn á séreignarsparnað viðkomandi.“