Stjórnir Auðar Capital og Virðingar samþykktu á dögunum samruna félaganna. Viljayfirlýsing  um sameiningu var samþykkt í ágúst og hefur vinna að samkomulaginu staðið yfir síðan þá. Stjórnir félaganna samþykktu svo samrunann á föstudag fyrir hálfum mánuði. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Auðar Capital, segir í samtali við VB.is að málið fari nú til umfjöllunar hjá eftirlitsstofnunum. Þá verði leitað samþykkis hluthafa.

Þegar viljayfirlýsing um samrunann var undirrituð í ágúst sendu félögin sameiginlega tilkynningu þar sem kom fram að ef af sameiningu félaganna verður, muni sameinað félag verða eitt öflugasta verðbréfafyrirtæki á Íslandi og verða leiðandi samstarfsaðili fagfjárfesta og efnameiri einstaklinga. Heildareignir í stýringu hjá sameinuðu félagi verða allt að 100 milljarðar króna og heildareignir í fjárvörslu allt að 180 milljarðar króna.

Stefnt er á  samruna félaganna í janúar með samþykki hluthafafunda og eftirlitsstofnana.