Danska gámaflutningafélagið A.P. Moller- Maersk tilkynnti í dag að félagið stefndi að því að kaupa samkeppnisaðila sinn P&O Nedllod (P&O) fyrir 2,3 ma.EUR. Hluthafar P&O myndu því fá 57 evrur á hlut fyrir eign sína í félaginu sem er 37% hærra en lokaverð þann 9.maí síðastliðinn. Maersk er því tilbúið að greiða umtalsvert yfirverð fyrir hluti í P&O. Núverandi hluthafar munu auk þess halda rétti sínum til arðgreiðslna enda koma kaupin ekki til með að ganga í gegn fyrr en greiddur hefur verið 1 evru arður á hlut til allra hluthafa P&O en arðgreiðslan fer fram á föstudaginn kemur segir í Vegvísi Landsbankans.

Með samrunanum verður til mjög öflugt flutningafyrirtæki en Maersk er nú þegar stærsta fyrirtæki greinarinnar en P&O er það þriðja stærsta. Mikill vöxtur einkennir flutningageirann enda hefur eftirspurn eftir skipaflutningum í Kína aukist til muna sérstaklega í tengslum við útflutningsgeira landsins. Þannig er talið að gámaflutningar til Bandaríkjanna frá Asíu aukist um 10% eða meira á ári. Sameinað félag verður því vel í stakk búið að mæta þessari auknu eftirspurn en félagið kemur til með að hafa yfir 550 skip á sínum snærum.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.