Finnska flugfélagið Finnair hefur áætlunarflug til Íslands frá Helsinki, en félagið hefur ekki áður flogið reglulega til Íslands. Þetta kemur fram í frétt Túristi.is.

Upprunalega var hugmyndin að flogið yrði fjórum sinnum í viku frá vori fram á haust. Vegna mikillar eftirspurnar hefur sú hugmynd verið endurskoðuð og því býður flugfélagið upp á Íslandsflug fimm sinnum í viku frá vori fram á haust og yfir veturinn verður flogið þrisvar sinnum á viku.

Finnair er stórtækt í flugi til Suðaustur-Asíu og Austur-Asíu og samkvæmt upplýsingafulltrúa félagsins, Simon Barrette, hefur eftirspurnin eftir Íslandsferðum hjá Kínverjum og Japönum stóraukist, og það sé ein helsta ástæðan fyrir þessari breytingu hjá Finnair. Þó sé einnig tekið fram að áhugi Finna sjálfra fyrir fluginu sé einnig mikill.