Gríðarlegt tjón varð í stórbruna hjá Ístaki á virkjanasvæði Sisimiutvirkjunar á Grænlandi sl. föstudag, að því er fram kom á heimasíðu Ístaks.

Verkstæði og lager með öllum varahlutalager vinnustaðarins, gámum, verkfærum, vélum, rekstrarvörulager, 1,5 MW díselrafstöðvum, 11 kV háspennuvirki og vatnsveitubúnaði gjöreyðilagðist í stórbrunnum. Engin slys urðu á fólki, en fjárhagslegt tjón er mikið.

Talið er að kviknað hafi í út frá bilun í vélbúnaði eða rafbúnaði díselrafstöðva. Þegar eldur kviknaði var verkstæðissvæðið mannlaust, en tvær af þremur rafstöðvum voru í gangi til framleiðslu á rafmagni.

Töf á framkvæmd verksins verður mest í jarðgangagerð þar sem framleiðsla rafmagns með háspennubúnaði, ásamt þjónustuaðstöðu og varahlutir jarðgangatækja er algerlega horfið.

Eftir að sértækur búnaður sem þarf til jarðgangagerðar verður kominn á staðinn aftur, tekur um þrjá mánuði að ljúka jarðgangagerð. Ekki liggur fyrir  hvenær hægt verður að hefja vinnu að nýju við jarðgangagerðina.