Fyrirtaka féll niður í máli Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) gegn þrotabúi Kaupþingi sem fram átti að fara í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Kaupþing var aðalstyrktaraðili handboltalandsliðsins og gerði í það minnsta tvenns konar styrktar- og auglýsingasamninga við liðið í byrjun árs 2007 til þriggja ára upp á nokkrar milljónir króna. Landsliðið keppti í treyjum með merki Kaupþings en gerði það síðar undir merkjum Arion banka.

DV sagði í umfjöllun um málið í fyrra greiðsluna sem deilt væri um hljóða upp á átta milljónir króna.

Málið snýst um uppgjör á styrktar- og auglýsingasamningi sem þrotabú Kaupþings hafði viðurkennt að hluta og röð kröfunnar í almennum kröfum þrotabúsins. Ekkert fæst upp í styrktarsamninga á borð við þá sem HSÍ gerði á sínum tíma.

Eftir því sem næst verður komist var samningurinn á milli HSÍ og Kaupþings efndur fram að hruni í október 2008 en féll með bankanum á milli skips og bryggju. Slitastjórn Kaupþings mun ekki hafa séð ástæðu til þess að halda lífi í samningnum við HSÍ. Nýr samningur var í kjölfarið gerður við Arion banka.

Landsliðið mætir Spánverjum á EM í handbolta í Serbíu nú klukkan 15.

Þess ber að geta að um það leyti sem HSÍ gerði auglýsingasamninginn við Kaupþing fyrir fjórum árum var Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari verkefnisstjóri hjá Kaupþingi.

Líklegt þykir að mál HSÍ og þrotabús Kaupþings verði tekið aftur fyrir í héraðsdómi á næstu dögum.