Straumur fjárfestingabanki hefur að nýju tekið upp viðræður um kaup á hluta erlendrar starfsemi Landsbankans. Umræður hófust fyrir fimm dögum síðan og viðbúið er að þeim ljúki innan fimm daga, að því er kemur fram á Dow Jones.

Þann 1.október síðastliðinn gerðu Straumur samkomulag við Landsbankann um að kaupa Landsbanki Securities, Landsbanki Kepler og 84% hlut í Merrion Landsbanki fyrir samtals 380 milljónir evra. Þeim samningi var hins vegar rift 10.október í kjölfar ríkisvæðingar Landsbankans. Merrion og Kepler hafa nú verið seld öðrum. Núverandi viðræður snúa að því að Straumur kaupi hluta starfsemi Landsbanki Securities.

Ólafur Teitur Guðnason, fjölmiðlafulltrúi Straums, segir í samtali við Dow Jones að stjórnendur Straums hafi verið spenntir fyrir kaupum á hluta starfsemi Landsbankans og hafi haft fullan hug á að ná samningum. Ólafur segir Straumsmenn hafa verið vonsvikna þegar hætta þurfti við fyrri samning.

Leiðrétting: Í fréttinni hafa verið leiðrétt ummæli eftir Ólaf Teit Guðnason sem voru rangt eftir höfð vegna þýðingarvillu í fyrri útgáfu. Beðist er velvirðingar á mistökunum.