Straumur hefur ekki selt neinar af eignum sínum í XL Leisure Group og því ekki hagnast af slíkri sölu líkt og breska blaðið Daily Mirror gefur til kynna í frétt sinni í gær.

Daily Mirror sagði í fréttaskýringu sinni í gær að viðskiptavinir félagsins hefðu tapað verulegum upphæðum á gjaldþroti þess á meðan lánveitendur hefðu hagnast á sölu eigna úr félaginu og nefndi sem dæmi íslenska bankann Straum.

Georg Andersen, forstöðumaður samskiptasviðs Straums, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Straumur hafi ekki selt neinar eignir úr félaginu og vísar því frétt Daily Mirror á bug.

Við gjaldþrot XL Leisure Group hafi Straumur, sem stærsti kröfuhafinn, tekið yfir XL Leisure í Þýskalandi og Frakklandi - sem áður tilheyrðu XL Leisure Group.

Georg segir viðskiptavini þessara félaga ekki hafa orðið fyrir neinum töfum og því aldrei tapað fjármagni á því að þurfa að breyta ferðatilhögum sínum.

Hann segir að hjá félögunum tveimur starfi nú um 750 manns í flugrekstri.

Þá segir Georg að óljóst sé hvort og þá hvenær félögin verði seld.