Svissneski matvælaframleiðandinn Nestlé tilkynnti á mánudag að yfirtaka á bandaríska heilsuvörufyrirtækinu Jenny Craig hefði verið samþykkt. Tilboðið hljóðar upp á 600 milljónir Bandaríkjadala, eða 45 milljarða króna. Jenny Craig fyrirtækið var stofnað árið 1983 og selur megrunarvörur á mörkuðum í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Velta fyrirtækisins var um 400 milljónir Bandaríkjadala á síðustu tólf mánuðum.

NYSE íhugar að stofna nýja kauphöll í London
Bandaríska kauphöllin NYSE (New York Stock Exchange) mun íhuga að opna nýja kauphöll í London ef sameinuð kauphöll NYSE og frönsku kauphallarinnar Euronext stendur ekki undir væntingum. Einnig kæmi til greina yfirtaka á Kauphöllinni í London (London Stock Exchange.)

Stálframleiðandinn Mittal vongóður um tilboð í Arcelor
Fyrirhugaður hluthafafundur Arcelor var felldur niður á mánudag og þykir það benda til þess að auknar líkur séu á að yfirtökuboð hollenska stálframleiðandans Mittal nái í gegn. Tilboðið hljóðar upp á 23,19 milljarða evra. Þjónustufyrirtækið Institutuional Shareholder Services hefur ráðlagt hluthöfum Arcelor að kjósa gegn fyrirhuguðum samruna fyrirtækisins við rússneska stálframleiðandann Severstal.

Bættir skilmálar Deutche Börse freista Euronext
Þýski verðbréfamarkaðurinn Deutche Börse hefur bætt skilmála kauptilboðs síns í evrópsku kauphöllina Euronext. Þó að kaupverðið sé það sama eru nú skilmálar tilboðsins orðnir nægilega hagstæðir til að veita bandarísku kauphöllinni NYSE samkeppni, sem hafði áður lagt fram hærra kauptilboð.

Lego flytur starfsemi til Tékklands
Danska leikfangafyrirtækið Lego Group hyggst færa þriðjung af framleiðslu sinni til Tékklands, þá mun fyrirtækið segja upp um 1.200 starfsmönnum í Danmörku. Lego hefur áður lokað einingum í Sviss og víðar í Evrópu og fært starfsemi til Tékklands Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Billund og starfa þar nú um 3.000 manns.

Miklar vonir bundnar við Skandia
Suður-afríska tryggingarfélagið Old Mutual, tilkynnti á þriðjudag að 800 starfsmönnum verði sagt upp og að starfsstöðvum fyrirtækisins í Finnlandi og á Spáni verði lokað. Þessar aðgerðir eru liðir í yfirtöku fyrirtækisins á sænska tryggingarfélaginu Skandia, en talmenn Old Mutual segja að miklar vonir séu bundnar við Skandia og að vaxtarmöguleikar fyrirtækisins séu meiri en talið var.

Aukning á byggingu nýrra húsa í Bandaríkjunum
Aukning varð á byggingu nýrra húsa í Bandaríkjunum í fyrsta skiptið síðan í janúar. Það þykir benda til þess að húsnæðismarkaðurinn sé að rétta úr sér þrátt fyrir vaxtahækkanir. Ástandið á húsnæðismarkaðnum þykir auka réttmæti spár bandaríska seðlabankans um að hægja sé á hagvexti.