„Við ætlum okkur að vera mótvægi við ríkisbankana og munum einbeita okkur að því að veita góða þjónustu.“

Þetta segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka í samtali við Viðskiptablaðið en eins og áður hefur komið fram hefur bankinn náð samkomulagi við Skilanefnd SPRON um kaup MP Banka á Netbankanum og útibúaneti SPRON.

Styrmir Þór segist aðspurður hafa fengið mikla hvatningu meðal viðskiptavina SPRON um að MP tæki yfir reksturinn og telur að viðskiptavinir muni færa sig yfir til bankans þegar þeim gefst færi á því á mánudag.

Samkvæmt sameiginlegri tilkynningu frá MP Banka og Skilanefnd SPRON munu þrjú útibú bankans halda áfram rekstri, þ.e. útibúin við Skólavörðustíg, á Seltjarnarnes og í Borgartúni en þá hefur MP Banki skuldbundið sig til að bjóða að lágmarki 45 starfsmönnum SPRON og Netbankans starf.

Um 10 milljarðar króna þegar í innlánum hjá MP Banka

Hjá SPRON starfa í dag um 150 manns en rétt er þó að taka fram að þar eru meðtaldir starfsmenn dótturfélaga og allra deilda SPRON.

Hjá MP Banka starfa nú um 50 manns þannig að starfsmannafjöldi félagsins eykst um tæp 100% á einni viku en að sögn Styrmis Þórs er helst um að ræða starfsfólk útibúa sem verður boðið starf hjá nýjum banka.

„Vonandi vex þetta en við getum ekki tekið fleiri yfir til okkar í bili,“ segir Styrmir Þór.

Styrmir Þór ítrekar að viðskiptabankasvið MP Banka verður rekið undir merkjum SPRON en að sögn Styrmis var MP Banki þegar kominn með rúma 10 milljarða króna í formi innlána en bankinn fékk viðskiptabankaleyfi á síðasta ári. Fjárfestingabanki félagsins verður áfram rekinn undir merkjum MP Banka.

Hann segir að SPRON eigi djúpar rætur meðal viðskiptavina og áfram verði unnið að því að veita fyrirtaksþjónustu og sinna viðskiptabankanum vel.