Niðurstöður tilraunverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg benda til þess að starfsmenn geti sinnt verkefnum sínum til fulls þrátt fyrir fjórum til fimm klukkutímum styttri vinnuviku. Enginn aukakostnaður fylgdi tilrauninni fyrir utan bakvakt á föstudagseftirmiðdögum hjá Barnavernd. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt fréttinni benda niðurstöðurnar til þess að styttri vinnuvika bæti andlega og líkamlega líðan starfsmanna, starfsánægja aukist og tíðni skammtímaveikinda lækkar. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og formaður stýrihóps um innleiðingu verkefnisins, segir tvímælalaust jákvæð áhrif af þessari tilraun. Hún segir æskilegt að halda áfram með verkefnið til að mæla hvort áhrifin vari.

Tilraunin fór fram á tólf mánaða tímabili  í Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og hjá Barnavernd; tveimur vinnustöðum þar sem álag var talið mikið. Hjá Barnavernd var vinnuvikan stytt um fjóra klukkutíma með því að loka eftir hádegi á föstudögum. Hjá Þjónustumiðstöðinni var lokað klukkan þrjú í stað fjögur alla virka daga.