Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) afhendir á morgun, þriðjudaginn 9. júní, Frelsisverðlaun SUS sem gefin eru til heiðurs Kjartani Gunnarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.

Að þessu sinni hefur SUS ákveðið að veita verðlaunin Davíð Scheving Thorsteinssyni og Hugmyndaráðuneytinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS.

Í tilkynningunni kemur fram að Davíð Scheving Thorsteinsson hefur allan starfsferil sinn farið ótroðnar slóðir í íslensku viðskiptalífi.

„Á tímum viðskiptahafta og skömmtunar lagði Davíð til atlögu við hið opinbera í því skyni að geta boðið Íslendingum upp á meira úrval og fjölbreytni. Þannig hefur athafnasemi hans og útsjónarsemi í viðskiptum verið meðborgurum hans til hagsbóta. Þar að auki hefur hann verið bæði málsvari og fyrirmynd þeirra sem trúa því að einstaklingurinn fái þess megnað að breyta umhverfi sínu því margsinnis hefur Davíð Scheving boðið stjórnvöldum og ríkjandi hugarfari byrginn,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að sú leið sem hann lagði er sú leið sem ungir sjálfstæðismenn fylgja eftir og reyna markvisst að hafa í hávegum.

„Davíð hefur áorkað meira en flestir aðrir í þessari baráttu og er því SUSurum mikill innblástur í starfi sínu.“

Þá kemur fram að Hugmyndráðuneytið er verkefni sem var sett á laggirnar þann 10. janúar 2009 og er samfélagsverkefni sem byggir á sjálfboðavinnu. Markmið Hugmyndaráðuneytisins er að reyna að finna jákvæðar hliðar á þeim vandamálum sem uppi eru. Þetta er fullkomlega ópólitískur vettvangur sem byggist á framkvæmdagleði og bjartsýni. Á hverjum laugardegi hefur þessi hópur komið saman undir þeim formerkjum að með frumlegri hugsun, sköpunargleði og athafnasemi sé hægt að skapa bæði veraldleg og menningarleg verðmæti sem munu hjálpa þjóðinni að halda stöðu sinni sem eitt mannvænlegasta samfélag heims.

„Hugmyndaráðuneytið er staður þar sem hugsuðir og fagmenn frá ólíkum sviðum atvinnulífsins, háskólunum og stjórnsýslunni hittast og skiptast á hugmyndum, reynslusögum, hlusta á fyrirlestra, mynda tengsl og veita hvert öðru stuðning til framkvæmda. Starfsemi Hugmyndaráðuneytisins snýst um að reyna að virkja einstaklinginn til framkvæmda og þannig virkja atvinnulífið án þess að hið opinbera sé að blanda sér í það starf. Þetta frumkvæði er íslensku þjóðfélagi mikilvægt því í þeirri hugsun felst sá sannleikur að það er máttur einstaklinganna, hvers og eins og saman í hópum - en ekki oftrú á stjórnmál og embættismenn - sem mun treysta stoðir þjóðarinnar á ný,“ segir í tilkynningunni.

Um Frelsisverðlaun SUS

Frelsisverðlaun SUS voru afhent í fyrsta skipti árið 2007. Frelsisverðlaunin eru veitt árlega til einstaklings og samtaka sem að mati forystu ungra sjálfstæðismanna hafa unnið frelsishugsjóninni gagn með störfum sínum og hugmyndabaráttu.

Fyrri handhafar verðlaunanna eru:

  • 2007 Andri Snær Magnason og Útgáfufélagið Andríki
  • 2008 Margrét Pála Ólafsdóttir og Viðskiptaráð