Vegagerðin áformar að tvöfalda Suðurlandsveg frá vegamótum Vesturlandsvegar að Hólmsá ofan Reykjavíkur. Byggður verður 2 + 2 vegur og tengingum verður fækkað frá því sem nú er. Verður vegurinn byggður í áföngum.

Drög að tillögu að matsáætlun eru nú til kynningar fyrir almenning áður en þeim verður skilað inn til formlegrar umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun að því er segir á  vefsíðu Vegagerðarinnar.

Vesturhluti fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis frá Vesturlandsvegi að Rauðavatni hefur þegar verið undirbúinn og verða akreinar byggðar austan og norðan núverandi vegar. Við vegamót Breiðholtsbrautar er landrými takmarkað og einnig er þrengt að vegsvæði við Rauðavatnsskóg. Á þeim vegkafla verður byggður vegur með þröngu vegsniði. Suðurlandsvegur liggur síðan á bökkum Bugðu (Hólmsár) austan Norðlingaholts á svæði sem að stórum hluta hefur verið raskað með ýmsum framkvæmdum. Lögð verður áhersla á að raska ekki ánni og árbakkanum og því verður vegurinn tvöfaldaður til suðurs eftir að vegurinn þverar Bugðu (Hólmsá) og aftur verður yfirfærsla og breikkun til norðurs þegar farið verður yfir ána í annað sinn.

Aðlaga þarf tengingar mislægra vegamóta við Bæjarháls og tengingar við hringtorg við Breiðholtsbraut. Tvöfalda þarf hringtorg við Norðlingavað og byggja veggöng og aðlaga tengingu við Heiðmörk. Byggð verða mislæg vegamót við Hafravatnsveg og aðlaga þarf lýsingu, reið-, hjóla og gönguleiðir að nýjum tvöföldum vegi.