Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagði að kjósendur í Reykjavík hefðu þegar hafnað nýjum meirihluta.

Þetta sagði hún á auka borgarstjórnafundi sem nú stendur yfir. Hún sagði Sjálfstæðisflokkinn brotinn og klofinn.

Svandís spurði í ræðu sinni hvort rétt væri að athuga að stjórnmálaflokkar þyrftu minnst tvo fulltrúa til að taka ákvarðanir á sveitastjórnarstigi.

Hún spurði hvort rétt væri að Alþingi eða þá Samband íslenskra sveitafélaga myndi skoða þau mál.

Svandís spurði hvort eðlilegt væri að eins manns stjórnmálaflokkar gætu haft þau völd sem til að mynda Framsóknarflokkur fær nú í nýjum meirihluta.

Hún sagði nýmyndaðan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vera „stóriðju meirihluta“ og sagði að stóriðjustefnan væri sterk og kröfuhörð.